Tveir fóru holu í höggi á Kirkjubólsvelli í vikunni
Hlutirnir gerast á Kirkjubólsvelli - tveir fóru holu í höggi í vikunni!
Á 8 dögum fóru fjórir kylfingar holu í höggi!
Í síðustu viku greindum við frá því að kylfingarnir Erlingur Jónsson og Lárus Einar Ólafsson hefðu náð því sem alla kylfinga dreymir um, að fara holu í höggi. Í þessari viku þann 13. ágúst gerðu svo tveir aðrir kylfingar sér lítið fyrir og endurtóku leikinn. Það voru þau Guðbjörg Gylfadóttir Blöndal úr Golfklúbbnum Jökli í Snæfellsbæ og heimamaðurinn Friðrik Þór Friðriksson en þetta var í fyrsta skipti sem þau ná þessu svokallaða draumahöggi.
Guðbjörg sagðist ekki þekkja völlinn mjög vel, vildi ekkert vera að flækja málin og ákvað að taka bara léttan dræver. Flugið á boltanum varð því frekar lágt og þau héldu að hann hefði endað í glompunni fyrir framan flötina. Boltann var þó hvergi að finna í glompunni og leituðu Guðbjörg og meðspilarar hennar allt um kring en enginn bolti var sjáanlegur neins staðar. Guðbjörg varð örlítið vonsvikin að týna bolta svona snemma á hringnum og sagði hinum bara að klára holuna. Það var þá sem þau sáu boltann hennar liggja sultuslakan í holunni. ,,Ég var orðlaus, átti aldrei von á þessu þar sem ég spila alls ekki mikið golf en gaman að það sé á þessum velli því ég var búin að vera að tala um að mér fyndist hann svo skemmtilegur og að ná þessu í holli með mínu besta fólki, manninum mínum, tvíburasystur og mági með Snæfellsjökulinn minn í bakgrunni er toppurinn!” sagði Guðbjörg sem var að vonum mjög ánægð eftir þennan golfhring.
Seinna um daginn var það Friðrik Þór Friðriksson sem hélt af stað með félögum sínum Árna Rúnari og Hafsteini Þór og náði svo draumahögginu sínu í fyrsta sinn á ferlinum á sömu holu, annarri holu vallarins. Friðrik var síðastur á teig, sló með 5 tré og sló frekar lágan bolta sem lenti 10-15 metra fyrir framan flötina og rúllaði svo í áttina. Aðspurður sagði Friðrik: ,,Við sáum boltann ekki detta ofan í holuna því það var sól á móti okkur. Hafsteinn sagði að hann gæti verið ofan í og ég svaraði ,,Nei andskotinn”. Svo þegar við komum nær, sáum við ekki boltann á flötinni og ennþá nær sáum við glitta í boltann þar sem hann lá utan í stönginni og mjakaðist rólega ofan í holuna því það var smá vindur og stöngin á hreyfingu. Svo var bara gleði og aftur gleði”.
Hola í höggi er alltaf einstakt augnablik á golfferli hvers kylfings svo okkur hjá Golfklúbbi Sandgerðis þykir einstaklega vænt um þegar það gerist á okkar Kirkjubólsvelli. Það er svo auðvitað merkilegt út af fyrir sig að þessi fjögur atvik hafi öll átt sér stað á sömu holunni á 8 daga tímabili.
Það verður svo spennandi að sjá hvaða kylfingar fara holu í höggi í næstu viku... 😊



